„Ég er alltaf bjartsýnn“

Í kvöld er stórleikur í íþróttahúsi Vallaskóla þegar Selfoss tekur á móti nágrönnum sínum í ÍBV í 8-liða úrslitum Símabikars karla í handbolta.

Það er mikið í húfi fyrir þessi 1. deildarlið því sigurliðið fer í undanúrslit bikarsins sem leikin verða í Laugardalshöllinni.

„Ég á von á hörkuleik gegn góðu og reynslumiklu liði, ég er alltaf bjartsýnn og tel okkur eiga möguleika í kvöld,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

Seinast þegar liðin mættust unnu Eyjamenn öruggan sigur, 26-32, svo Selfyssingar eiga harma að hefna. ÍBV er í toppsæti 1. deildarinnar og hefur ekki tapað ellefu leikjum í röð en Selfoss hefur unnið síðustu tvo leiki og er í 4. sæti deildarinnar.

Innbyrðisleikir þessara liða hafa oftar en ekki verið dramatískir og blóði og svita úthellt af miklum móð. Arnar segir mikilvægt að leikmenn Selfoss mæti með hausinn rétt skrúfaðan á höfuðið.

„Það er ekki spurning. Við lékum ekki nógu vel síðast er við mættum þeim og töpuðum boltanum of oft sem leiddi til auðveldra marka. Nú stillum við upp aðeins breyttu liði sem hefur vonandi lært af reynslunni og mér sýnist okkar menn vera á réttu róli. Vonandi skilar það sér í kvöld.“

Af leikmannamálum liðsins fyrir kvöldið er það að frétta að Gústaf Lilliendahl hefur ekki leikheimild í bikarnum þar sem hann spilaði bikarleik með Fylki fyrr í vetur. Þá er Sverrir Pálsson meiddur og verður ekki með, Örn Þrastarson ætti að vera klár í leikinn en óvíst er með þátttöku markvarðarins sterka, Helga Hlynssonar. „Helgi er meiddur á hendi og það er ólíklegt að hann verði með en við munum taka stöðuna á honum í dag,“ segir Arnar.

Leikurinn í kvöld er einn sá stærsti hjá liðinu á þessu keppnistímabili og vonast forráðamenn liðsins eftir því að Selfyssingar muni fjölmenna í stúkuna og styðja sína menn af fullum krafti.

Fyrri greinSparkvöllurinn við Flóaskóla raflýstur
Næsta greinGera alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning