Hamar tapaði mikilvægum stigum í lykilleik í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Topplið Hattar kom í heimsókn í Frystikistuna og sigraði 95-102.
Þetta var fyrsti leikur Hamars undir stjórn nýja þjálfarans, Hallgríms Brynjólfssonar. Hann var hissa í leikslok.
„Ég er eiginlega hissa á að við höfum haft tækifæri á því að ná sigri í lokin. Mér fannst við ekki standa nógu vel saman sem lið þegar Höttur var með áhlaupið á okkur,“ sagði Hallgrímur í samtali við sunnlenska.is.
„Við erum með hörkuflottan hóp og marga mjög góða leikmenn innan hópsins en á meðan við spilum ekki saman sem lið í 40 mínútur þá eigum við ekkert skilið.“
Hamar náði tíu stiga forskoti í 1. leikhluta, 26-16, en tapaði því niður í eins stigs mun á þremur og hálfri mínútu. Staðan var 30-29 að loknum 1. leikhluta og gestirnir komust fimm stigum yfir strax í upphafi 2. leikhluta. Hattamenn létu kné fylgja kviði og héldu inn í hálfleikinn með sjö stiga forskot, 47-54.
Seinni hálfleikur var jafn en í upphafi 4. leikhluta náðu Hattarmenn ellefu stiga forskoti. Hamar minnkaði muninn niður í sex stig þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en Hattarmenn voru klókir á lokakaflanum, komnir í bónus og kláruðu leikinn af öryggi á vítalínunni.
Julian Nelson var stigahæstur hjá Hamri með 24 stig, Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 18 og tók 13 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson skoraði 14 stig, Örn Sigurðarson 13, Snorri Þorvaldsson 10, Halldór Gunnar Jónsson 8, Bjartmar Halldórsson 6 og Kristinn Ólafsson 2.
Hamar er í 3. sæti deildarinnar með 14 stig, að ellefu umferðum loknum. Höttur er í toppsætinu með 20 stig og hefur leikið einum leik meira en næstu lið.