„Það er synd að við skulum þurfa að kveðja deildina miðað við hvernig við lékum í seinni hluta mótsins ef frá eru teknir síðustu tveir leikirnir,“ segir Logi Ólafsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í knattspyrnu.
Selfoss tapaði 1-3 fyrir ÍA í gær og féll úr Pepsi-deildinni. Úrslit leiksins skiptu reyndar ekki máli þegar upp var staðið því Fram vann ÍBV í lokaumferðinni og því munaði sex stigum á Fram og Selfoss þegar stigin voru talin saman í mótslok. Þetta er í annað sinn sem Selfyssingar falla sem nýliðar úr efstu deild en í fyrsta sinn sem Logi Ólafsson fellur með sitt lið.
„Þetta snýst ekki um mig, þetta er slæmt fyrir félagið en svosem ekki óeðlilegt að lið sem er að koma upp lendi í þessu í einhver skipti. Það er unnið gott starf hjá félaginu en þetta er leiðinlegt skref á þessari þroskabraut sem liggur að því að búa til gott og stöðugt efstu deildar lið,“ sagði Logi í samtali við sunnlenska.is.
„En úr því sem komið var þá tel ég að okkur hafi verið refsað illilega með röngum dómi á móti Fylki þar sem sá leikur var að þróast á sama hátt og þeir leikir sem við höfðum unnið á undan. Þar fór þetta endanlega fannst mér. Við erum að etja kappi við lið eins og Fram í fallbaráttunni, eitthvað sem þeir þekkja vel en við þekkjum hana ekki og það var það sem reið baggamuninn í lokin.“
Ekkert féll með Selfyssingum
Selfyssingar héldu í vonina um að bjarga sér frá falli allt fram í lokaumferðina. Örlög liðsins réðust í gær en þrátt fyrir tap í síðustu tveimur deildarleikjunum þá tapaðist baráttan ekki þar, heldur með hörmulegu gengi liðsins í júní og júlí. Logi segir að ýmislegt hafi mátt laga en aðra hluti, eins og meiðsli og leikbönn hafi liðið einfaldlega ekki ráðið við.
„Það sem er ósagt í þessu núna er að við þurfum að vera fyrr tilbúnir með okkar lið. Við erum að fá menn erlendis frá sem koma of seint allt of seint til okkar. Það eru menn að verða löglegir með okkar liði þegar það er komið fram í þriðju umferð og þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna í. Við byrjum ágætlega en þegar við erum komnir með tvo sigra og eitt jafntefli þá dettur öll vörnin okkar út í einu lagi með meiðslum og leikbönnum. Þá þarf að búa til nýtt lið og kalla inn nýja menn í glugganum,“ segir Logi og vill meina að lítið hafi fallið með Selfyssingum í baráttunni í sumar.
„Já, það féll lítið með okkur, nánast ekki neitt, hvorki þegar við lékum, né úrslit annarra leikja. Að síðustu þá voru það dómaramistök eins og þessi á móti Fylki en ég tel að í vafaatriðum hafi þau aldrei fallið okkar megin. Ég nefni sem dæmi að við erum með 54 gul spjöld í sumar, lang spjaldahæstir en samt höfum við aldrei fengið ákúrur fyrir það að leika grófan fótbolta. Það virðist vera voðalega einfalt að lyfta gula spjaldinu þegar við erum annars vegar.“
Ýmsir hlutir sem þjálfarinn ber ábyrgð á
Þrátt fyrir þetta hleypst Logi ekki undan merkjum þegar hann er spurður út í ábyrgð þjálfarans.
„Nei, ég dreg mig ekkert undan í þessu. Það er líka mér að kenna að við erum ekki búnir að koma þessum leikmönnum til landsins fyrr. Það eru líka ýmsir hlutir sem gerast í aðdraganda leikjanna og í leikjunum sjálfum sem ég ber ábyrgð á. Þannig að ég er ekki undanþeginn því að hafa gert mistök í þessum hópi þrátt fyrir að hafa verið lengi í þessu og aldrei fallið áður.“
Samningur Loga við Selfoss rennur út nú í haust en hann segir framhaldið lítið hafa verið rætt. „Við munum setjast niður eftir helgina og ræða málin.“ En hefur þú hug á því að halda áfram? „Ég hef hug á því að ræða málin,“ sagði Logi léttur að lokum.