Þorsteinn Daníel Þorsteinsson skrifaði í vikunni undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.
Þorsteinn, sem er 24 ára, hefur verið lykilmaður í liði Selfoss undanfarin ár en hann hefur leikið 160 meistaraflokksleiki fyrir félagið.
„Ég er Selfyssingur í húð og hár og mér fannst ég ekki geta farið neitt í burtu þegar Selfoss er í þessari stöðu. Mig langar til þess að vera partur af því að hjálpa félaginu og koma því á þann stað sem það á að vera. Það hefði verið mjög létt að gefast upp eftir að liðið féll en ég elska Selfoss og liðið á ekki að vera í 2. deildinni,“ segir Þorsteinn Daníel.
„Ég er mjög ánægður með Dean Martin og hann er ein af ástæðunum fyrir því að ég skrifaði undir. Undirbúningstímabilið er byrjað hjá okkur og við byrjum af krafti. Önnur deildin er hrikalega erfið, ég veit það og það má ekki vanmeta hana. Við erum með unga og efnilega stráka og það á líka eftir að bætast í hópinn hjá okkur þannig að mér líst mjög vel á framhaldið,“ segir Þorsteinn Daníel ennfremur.