Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson átti fína innkomu þegar karlalið Íslands í knattspyrnu vann frækinn 2-1 sigur á Tékkum á Laugardalsvellinum í kvöld.
„Þetta var ógeðslega gaman í kvöld, og að fá að koma inná í þessum leik var ennþá skemmtilegra. Stemmningin fyrir leik var skemmtileg og að ná að ljúka þessu svona með stæl var frábært. Þetta var svo sætur sigur,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is.
Hann kom inná á 63. mínútu þegar Aron Einar Gunnarsson var nýbúinn að jafna, 1-1, eftir að Ísland hafði lent undir á 55. mínútu. Íslendingar efldust heldur betur við mótlætið og kláruðu leikinn með sóma.
„Já, það sem einkennir þennan hóp er hvað hann er orðinn reynslumikill þannig að menn panikka ekkert þó að liðið lendi undir. Menn halda sig við planið og við sýndum mikinn karakter með því að klára þetta svona vel,“ sagði Jón Daði sem var ánægður með sína innkomu.
„Ég held að þetta hafi bara verið mjög jákvætt og mín innkoma fín. Ég fékk þau skilaboð að ég ætti að pressa eins mikið og ég gæti og reyna að ógna eitthvað bakvið þá og mér fannst það takast nokkuð vel. Ég get farið sáttur heim eftir þetta,“ sagði Selfyssingurinn knái en hann átti þátt í að leggja upp sigurmark Íslands.
„Já, það var eitthvað klafs þarna í vítateignum en einhvernveginn náði upprunalega sendingin að rata til Kolla [Kolbeins Sigþórssonar] eftir að hafa farið í Tékka. Kolli kláraði þetta vel og það var gaman að eiga einhvern þátt í þessu marki,“ sagði Jón Daði að lokum.