Jón Auðunn Sigurbergsson, fyrirliði Árborgar, skoraði þrjú mörk í einvíginu gegn KFS og hann var sáttur í leikslok í kvöld.
„Þetta var bara nokkuð gott hjá okkur. Við byrjuðum bara mjög sterkir eins og við ætluðum að gera og keyrðum á þá. Við vorum öflugir á miðjunni og það skilaði sínu,“ sagði fyrirliðinn í samtali við sunnlenska.is í leikslok.
„Þeir lágu síðan dálítið á okkur í seinni hálfleik en þetta var komið hjá okkur og þeir voru ekki að skapa mikið. Vörnin stóð sig mjög vel í kvöld og við vorum alltaf hættulegir fram á við.“
Jón Auðunn skoraði eitt mark í kvöld og tvö mörk í fyrri leiknum gegn KFS og virðist vera kominn í gang eftir markaþurrð í sumar. „Þeir segja það strákarnir að þetta sé klippingin. Ég hefði átt að klippa mig fyrr. Það var löngu kominn tími á þetta, ég var kominn með lubba en mörkin komu með nýju klippingunni,“ segir Jón Auðunn brosandi.
Árborg mætir Tindastól í 4-liða úrslitum en Tindastóll sigraði í B-riðli 3. deildarinnar. „Það er bara flott að fá Tindastól. Við spiluðum við þá á undirbúningstímabilinu og töpuðum fyrir þeim þá. Við stefnum bara á sigur og ætlum okkur beint í úrslitaleikinn,“ sagði Jón Auðunn að lokum.