Svavari Páli Pálssyni, fyrirliða Hamars, var ekki skemmt eftir leikinn gegn Haukum í Iceland Express deildinni í kvöld. Haukar sigruðu 82-89.
„Þetta var rosalega kaflaskipt. Við tókum kafla þar sem vörnin hélt og síðan komu langir kaflar þar sem við skiptumst bara á körfum. Þetta er fyrsti leikur vetrarins og við vorum bara of spenntir. Við erum með mikið breytt lið og það er stutt síðan Andre kom til landsins þannig að við erum enn að slípa okkar leik. Ég get fullyrt að við erum mikið betri en þetta,“ sagði Svavar Páll í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Leikurinn var mjög jafn og fast spilaður á köflum. Ég er búinn að vera það lengi í þessu að ég veit að maður á aldrei að tala um dómarana – og ég ætla ekki að gera það,“ sagði Svavar Páll og glotti.
„Við erum að spila á heimavelli gegn nýliðum í deildinni og það er auðvitað skelfilegt að tapa þessum leik. Ég er fyrirliðinn og ég skammast mín mest af öllum,“ sagði Svavar að lokum.