Slavica Dimovska var hoppandi kát í viðtali við sunnlenska.is eftir leik Hamars og Hauka en hún gerði út um hann á lokasekúndunni.
Staðan var 76-76 þegar 3,2 sekúndur voru eftir og Hamar átti innkast við miðju. Slavica var ekkert að tvínóna við hlutina þegar hún fékk boltann úti á velli heldur smellhitti körfuna og sigurinn féll í skaut Hvergerðinga, 79-76.
„Þetta er í annað skiptið sem ég geri þetta. Í fyrra skiptið þá var það með Haukum í leik gegn Hamri hér í Hveragerði. Ég er mjög glöð að geta gert þetta fyrir Hamar núna, ég skuldaði þeim eina svona körfu,“ sagði Slavica með bros á vör. „Ég hafði alltaf trú á því að skotið færi niður og ef þú trúir því þá gerist það.“
Leikurinn var jafn og liðin skiptust á um að hafa undirtökin þó að Hamar hafi leitt lengst af. Slavica segir að það hafi verið spenna í hópnum fyrir leik. „Við erum að mæta ríkjandi meisturum og við ætluðum að leggja okkur allar fram til að vinna leikinn. Þetta var mjög kaflaskipt hjá okkur og einbeitingin var ekki alltaf til staðar. En þegar upp er staðið þá er þetta góður sigur og mjög mikilvægt fyrir okkur að ljúka októbermánuði taplausar,“ sagði Slavica en hún segir varnarleikinn lykilinn að árangrinum.
„Við spiluðum þokkalega vörn á köflum í dag og um leið og varnarleikurinn er góður þá kemur sóknin með. Það er það sem við munum einbeita okkur að í næstu leikjum, að spila góða vörn.“