Egill Jónsson kom Selfyssingum í 1-0 í sigurleiknum gegn Keflavík með stórkostlegu marki. Hann hamraði knöttinn upp í samskeytin af 30 metra færi svo að flestir á vellinum misstu kjálkann niður í bringu.
„Mér fannst þetta mjög fínt hjá okkur í kvöld, við þurftum nauðsynlega á sigri að halda en þetta var kannski of mikið stress í lokin eftir að þeir minnkuðu muninn,“ sagði Egill í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við áttum að vera búnir að klára þetta því við fengum nokkur færi til þess í byrjun seinni hálfleiks. Þetta var sannfærandi framan af leik en lélegt að skora ekki fleiri mörk og klára leikinn.“
Egill skoraði sitt fyrsta mark fyrir Selfoss í kvöld og er óhætt að segja að þar hafi verið um að ræða dýrari týpuna. Egill virtist jafn hissa og aðrir á vellinum því hann fagnaði ekki einu sinni markinu.
„Ástæðan fyrir því að ég fagnaði ekki var bara að ég trúði þessu ekki. Oft þegar ég horfi á fótbolta þá verð ég svo pirraður út í mennina sem fagna ekki þannig að eigum við ekki að segja að þetta hafi verið fagnið – að fagna ekki. Það er búin að vera rosaleg markaþurrð hjá mér að undanförnu þannig að vonandi koma fleiri mörk í kjölfarið á þessu.“
Egill er ánægður í herbúðum Selfoss en hann er hjá liðinu á láni frá KR. Framundan er æðisgenginn lokasprettur þar sem Selfyssingar eru í gríðarlegri baráttu við Framara en liðin hafa jafnmörg stig í 10. og 11. sæti.
„Við tökum einn leik í einu og erum fyrst og fremst að hugsa um að klára okkar leiki. Það er stutt á milli leikja núna og við þurfum að hugsa vel um okkur sjálfa, hugsa um mataræðið og hvernig við hreyfum okkur. Svo lengi sem við klárum okkar þá höfum við trú fulla á þessu. Stemmningin er alveg rosalega góð í þessu liði og ég er bara mjög sáttur við þessa ákvörðun mína að koma hingað á Selfoss.“