„Ég var bara frekastur“

Ólafur Karl Finsen skoraði fyrsta mark Pepsi-deildarinnar á þessu sumri úr vítaspyrnu, strax á 6. mínútu leiksins.

„Ég sagði við pabba að ég ætlaði að reyna að skora fyrsta markið í deildinni á þessu sumri og það var gaman að ná því. Ég var bara frekastur og tók bara boltann, það var ekkert annað en það,“ segir Ólafur brosandi. „Spyrnan var kannski aðeins of há en samt nokkurn veginn eins og ég ætlaði mér.“

Ólafur var ánægður með baráttuna í Selfossliðinu en viðurkenndi að leikurinn hafi verið erfiður. „Þetta var bara mjög gaman, erfiður leikur, mikil hlaup og svolítið þungt að fara yfir á grasið. Þetta verður bara uppávið í framhaldinu og við eigum eftir að geta hlaupið meira. Við misstum kannski aðeins dampinn og vorum orðnir þungir í lokin en það er spilað þétt núna næstu daga og við verðum fljótir að venjast grasinu og munum þá halda dampi.“

Ólafur segir mikilvægt fyrir Selfyssinga að byrja vel í deildinni og hann gefur lítið fyrir hrakspár sparkfræðinga. „Við pælum ekkert í þessum spám. Menn halda kannski að það gefi okkur eitthvað aukalega að vera spáð falli en ég held að það skipti ekki nokkru máli. Við erum ekkert að velta þessu fyrir okkur en að minnsta kosti er þetta ekki slæm spá fyrir okkur.“

Fyrri grein„Lifðum hættulegu lífi“
Næsta greinGnúpverjar úr leik í bikarnum