„Ég var fenginn hingað til að skora“

„Það er frábært að komast í næstu umferð í bikarnum. Við viljum komast eins langt og við getum í keppninni og ég held að við höfum hópinn til að gera það,“ sagði Joseph Yoffe eftir leik Selfoss og ÍR í kvöld.

Selfoss komst í 32-liða úrslita Borgunarbikarkeppninnar með því að sigra leikinn, 2-5, og skoraði Joseph þrjú marka liðsins í leiknum. Hann segir að það hafi verið gott að vinna þennan leik eftir tapið gegn KA í fyrstu umferð deildarinnar.

„Við vorum ósáttir eftir síðasta leik. Við náðum ekki að koma okkur almennilega af stað. Ég veit ekki hvort að við vorum taugaóstyrkir eða hvað,“ sagði Joe, eins og hann er kallaður, í samtali við Sunnlenska.

„En það kemst upp í vana að vinna leiki og við tökum sjálfstraustið eftir þennan sigur í næsta leik.“

Hann var vissulega ánægður með að ná þrennunni í kvöld án þess þó að vilja gera of mikið úr því.

„Það er alltaf gaman að skora. Ég var fenginn hingað til að skora mörk og búa til færi. Ég átti ekki minn besta leik í dag, en ef ég fæ að spila, fæ sjálfstraust og strákana með mér þá mun ég skora mörk,“ sagði Englendingurinn.

Félagi hans í framlínunni, Spánverjinn Javier Zurbano, stóð sig einnig vel í kvöld og þeir virðast ná vel saman.

„Hann er frábær náungi innan vallar sem utan. Ég hef haft mjög gaman að því að vinna með honum,“ sagði Joe. „Ég held að við eigum eftir að skora mörg mörk og ná vel saman.“

Markaskorarinn hefur trú á liðinu og sumarið leggst vel í hann. „Við erum með mjög góðan hóp og frábæran þjálfara sem trúir á leikmennina og vill að við spilum fótbolta eins og á að spila hann. Ef við spilum okkar leik munu stigin koma,“ sagði Joe að lokum.

Fyrri greinÍvar missti af sigrinum í lokin
Næsta greinMótmæla fækkun bæjarfulltrúa