„Ég var í öruggum höndum hjá þessum drengjum“

Bjarni Jó var tolleraður í leikslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss hafði mikla yfirburði í 2. deild karla í knattspyrnu í sumar og þegar upp var staðið hafði liðið átta stiga forskot á Völsung í 2. sætinu. Selfyssingar tóku á móti sigurlaununum eftir lokaumferðina í dag og 2-2 jafntefli gegn Ægi.

Bjarni Jóhannsson tók við þjálfun liðsins síðasta vetur, eftir að það hafði fallið úr 1. deildinni og hann stýrði liðinu beina leið upp aftur – sem sparkspekingar áttu kannski endilega ekki von á.

„Þetta var öruggt, ég var í öruggum höndum hjá þessum drengjum,“ sagði Bjarni nýtolleraður í samtali við sunnlenska.is. Það sama var uppi á teningnum í sumar en ungt Selfosslið spilaði af miklu öryggi.

Einstakur árangur á útivelli
„Það voru gríðarlega miklar breytingar á liðinu á milli ára og svo misstum við menn út úr liðinu í glugganum í sumar. En það var fullt af ferskum löppum sem var til í að hlaupa aukalega og skila okkur þessum frábæra árangri. Árangur liðsins á útivelli er nánast einstakur, að taka þar 28 stig af 33 er frábært,“ sagði Bjarni.

Þurfum að halda vel utan um þennan hóp
Selfyssingar eru komnir aftur í 1. deildina en hvað þurfa þeir að gera til þess að standa sig þar?

„Við þurfum fyrst og fremst að halda vel utan um þennan hóp. Við settum mikinn metnað í umgjörð og þéttum líka betur umgjörðina í kringum þjálfarateymið. Við þurfum að bæta það áfram og halda áfram að æfa vel. Það er lykilatriðið í þessu. Sjálfsagt verða einhverjar styrkingar eins og gengur og gerist. Það eru líka góðir árgangar að koma upp núna, upp í 2. flokkinn og strákar sem eru í 2. flokki þannig að það þarf að halda vel utan um þetta, það er aðalmálið,“ sagði Bjarni að lokum.

Fyrri greinSelfoss fagnaði eftir nágrannajafntefli
Næsta greinGul viðvörun: Austan stormur á mánudag