Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, vann silfurverðlaun í þrístökki á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss sem haldið var í Laugardalshöllinni um helgina.
Egill átti ágæta stökkseríu en hann lengdi sig í hverju stökki, þar til hann stökk 12,66 m í þriðju umferð sem var hans lengsta stökk.
Þá vann hin unga og efnilega Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, bronsverðlaun í þrístökki með 11,33 m löngu stökki. Anna Metta, sem er aðeins 14 ára gömul, er greinilega í fínu formi þessa dagana, því hún setti Íslandsmet í flokki 15 ára í sömu grein helgina áður, þegar hún stökk 11,59 m.
