Selfyssingarnir Egill Blöndal og Grímur Ívarsson kepptu á Alþjóðlega Reykjavíkurmótinu í júdó á laugardag en það er hluti af Reykjavík International Games (RIG) sem nú standa yfir.
Egill komst í úrslit í -90 kg flokki þar sem hann tapaði fyrir hinum öfluga Jiri Petr frá Tékklandi. Grímur tapaði hins vegar fyrir Petr í fyrstu umferð en fékk uppreisnarglímu og endaði að lokum í þriðja sæti.
Hin efnilega Corinna Anklam sem er búsett á Íslandi um þessar mundir og æfir með júdódeild Selfoss lenti í fjórða sæti í -63 kg flokki á mótinu. Því miður varð ekkert að þátttöku Þórs Davíðssonar á mótinu en hann var skráður til leiks í -100 kg flokki.