Egill Blöndal, Umf. Selfoss, tryggði sér um helgina Norðurlandameistaratitilinn í júdó í -100 kg flokki. Þetta voru einu gullverðlaun Íslands á NM, sem fram fór í Drammen í Noregi.
Egill vann sinn riðil með þremur ippon köstum og mætti Norðmanninum Bård Nesbö Skreien í undanúrslitum og vann hann á stigum. Í úrslitaglímunni mætti Egill Svíanum Kevin Nestor, sem einnig var búinn að vinna allar sínar glímur. Úr varð hörku viðureign, en Egill vann eftir kast á síðustu mínútunni og hélt það út og tryggði sér gullið
Hinn ungi og efnilegi Fannar Þór Júlíusson, Umf. Selfoss, sem er á yngsta ári í U18, aðeins 15 ára gamall, fékk góða reynslu á sínu fyrsta Norðurlandamóti en hann keppti bæði í U18 og U21 í -73 kg flokki. Í U18 tapaði Fannar fyrstu glímu á móti sænskum keppanda en fékk uppreisn og mætti þá Norðmanninum Liam Sommer. Fannar sigraði eftir átta mínútna glímu á flottu ippon kasti. Hann tapaði svo í næstu umferð og varð í 16. sæti. Í U21 mætti Fannar mjög reyndum og góðum andstæðingum og tapaði báðum glímunum sínum en axlarmeiðsli sem hann varð fyrir á fyrri keppnisdeginum háðu honum aðeins.