Egill Blöndal, Umf. Selfoss, varð í gær tvöfaldur Íslandsmeistari í júdó. Hann sigraði bæði í -90 kg. flokki og í opnum flokki karla í fyrsta skipti á ferlinum.
Egill lagði Sveinbjörn Iura í báðum úrslitaglímunum og í viðtali við RÚV eftir mót sagðist hann glaður að hafa loksins unnið strákana sem hann er búinn að tapa svo oft fyrir undanfarin ár.
„Ég er búinn að vera í 2. og 3. sæti síðustu fimm ár. Ég er aðallega ánægður með að vinna strákana sem ég er búinn að tapa fyrir svo oft. Það er aukaatriði að hafa lent í 1. sæti, bara það að vita að maður er kominn á þetta level er virkilega gott,“ sagði Egill í samtali við RÚV.
Selfyssingar áttu fimm af sjö efstu keppendum í opnum flokki karla. Grímur Ívarsson varð í 3. sæti í þeim flokki og hann varð í 2. sæti í -100 kg. flokki. Þór Davíðsson varð í 3. sæti í -100 kg flokknum og fimmti í opna flokknum.
Úlfur Böðvarsson varð í 3. sæti í -90 kg flokki og jafn Þór í 5. sæti í opna flokknum.