Guðmundur Garðar Sigfússon, Einar Ottó Antonsson og Arilíus Marteinsson voru allir í byrjunarliði Stokkseyrar sem mætti Herði á Ísafirði í 5. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.
Allir spiluðu þeir 90 mínútur og fóru létt með það þrátt fyrir „háan“ aldur en Einar og Arilíus eru fertugir á árinu og Guðmundur árinu eldri.
Guðmundur Garðar náði þeim áfanga að spila sinn 400. opinbera knattspyrnuleik í gærkvöldi en Arilíus og Einar Otto eiga sömuleiðis vel yfir 300 leiki. Samtals hafa þremenningarnir spilað 1.093 KSÍ-leiki og skorað í þeim 222 mörk.
Þrátt fyrir gríðarlega leikreynslu í liði Stokkseyrar lauk leiknum með 4-0 sigri Harðar.