Guðni Valur Guðnason, ÍR, bætti í vikunni 31 árs gamalt Íslandsmet Vésteins Hafsteinssonar í kringlukasti á haustkastmóti ÍR í Laugardalnum.
Guðni Valur kastaði 69,35 metra og bætti met Vésteins um 1,71 metra. Íslandsmet Vésteins, 67,64 metrar, hafði staðið í 31 ár en Vésteinn var á sínum tíma einn fremsti kringlukastari heims og keppti á fernum Ólympíuleikum. Í dag býr hann í Svíþjóð og þjálfar meðal annarra heimsmeistarann Daniel Ståhl.
Vésteinn samgladdist Guðna og sendi honum hamingjuóskir þegar sunnlenska.is sló á þráðinn til hans í tilefni af nýja Íslandsmetinu. Hann átti auðvelt með að rifja upp metkastið á Selfossvelli þann 31. maí árið 1989.
„Ég minnist þess mjög vel þegar ég setti metið. Það er í eina skiptið sem ég hef tárast í kringlukasti, tilfinningin var svo góð. Um leið og kringlan flaug í veg þá fann ég, á meðan hún var í loftinu, að þetta var mitt besta kast og ég varð klökkur. Þetta var mjög sérstök tilfinning og eftirminnileg,“ rifjar Vésteinn upp.
Enn nokkur sunnlensk met í Íslandsmetaskránni
Þeim fækkar því Íslandsmetunum sem keppendur HSK eiga í karla- og kvennaflokki í frjálsum íþróttum. Öll þau met eru komin nokkuð til ára sinna. Íslandsmet Péturs Guðmundssonar í kúluvarpi er frá árinu 1990 og sama ár setti Þórdís Gísladóttir núverandi Íslandsmet í hástökki. Sigríður Anna Guðjónsdóttir á svo Íslandsmet kvenna í þrístökki frá árinu 1997.