Handknattleiksmaðurinn Einar Sverrisson frá Selfossi hélt í gær til Þýskalands þar sem hann verður við æfingar í eina viku hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Rhein-Neckar Löwen.
Einar er fyrsti leikmaður Selfoss sem fer til RNL síðan félögin gerðu samkomulag um að framúrskarandi leikmenn frá Selfossi fái tækifæri til að kynnast lífinu í atvinnumennskunni.
Einari var boðið að æfa með RNL í vikutíma og kynnast því hvernig eitt af bestu liðum í heimi undirbýr sig fyrir komandi keppnistímabil. Um leið gefst honum frábært tækifæri til þess að sýna sig og sanna.