Markvörðurinn Einar Guðni Guðjónsson var útnefndur leikmaður ársins á lokahófi Knattspyrnufélags Árborgar sem fram fór í Tryggvaskála á Selfossi í gær.
Einar Guðni átti gott ár í rammanum hjá Árborg á sínu fyrsta heila tímabili fyrir félagið sem leikur í 4. deild. Hann var einnig valinn varnarmaður ársins hjá liðinu.
Daníel Ingi Birgisson var valinn bjartasta vonin og Hartmann Antonsson var markakóngur Árborgar í ár. Hann var einnig valinn sóknarmaður ársins og Arnar Freyr Óskarsson var valinn miðjumaður ársins. Guðmundur Sigurðsson skoraði mark ársins.
Félagi ársins var valinn Árni Hilmar Birgisson og þeir Hartmann og Páll Óli Ólason fengu báðir viðurkenningu fyrir að hafa leikið 50 leiki fyrir félagið.