Einar Ottó ekki með næsta sumar

Einar Ottó Antonsson, besti leikmaður knattspyrnuliðs Selfoss sl. sumar, verður ekki með liðinu í Pepsi-deildinni næsta sumar.

Einar staðfestir þetta í samtali við Sunnlenska og hefur hann tilkynnt stjórn deildarinnar ákvörðun sína.

„Ég var búinn að ákveða það löngu áður en tímabilinu lauk að ég ætlaði að hvíla mig næsta sumar. Ástæðan er sú að ég hef verið slæmur í skrokknum og ekki getað beitt mér eins og ég vildi síðustu tvö tímabil,“ sagði Einar í samtali við Sunnlenska.

Einar, sem er 27 ára gamall, segir þó að það sé mögulegt að hann snúi aftur. „Það fer eftir því hvort skrokkurinn lagast.“

Einar er þriðji leikmaðurinn til að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið en Sævar Þór Gíslason og Ingþór Jóhann Guðmundsson hafa gert slíkt hið sama.

Fyrri greinÆviminningar, spennusögur og ljóð í Bókakaffinu
Næsta greinHamar lætur Cotton fara