Einar Ottó tekur við Ægi

Selfyssingurinn Einar Ottó Antonsson hefur tekið við þjálfun meistaraflokks Ægis en hann skrifaði í gær undir tveggja ára samning við félagið.

Einar Ottó er fæddur 1984 og hefur leikið nánast allan sinn feril með Selfoss við góðan orðstír. Hann hefur verið einn af lykilleikmönnum á Selfossi undanfarin ár en ætlar nú sölsa um og einbeita sér meira að þjálfun. Einar Ottó er íþróttakennari og menntaður íþróttafræðingur. Hann hefur einnig lokið öllum KSÍ þjálfaranámskeiðum nema efsta stiginu, þ.e. öllu nema KSÍ VI. Hann hefur undanfarin ár þjálfað yngri flokka á Selfossi með fínum árangri.

Einar Ottó tekur við meistaraflokki Ægis af Alfreð Jóhannssyni sem lét af störfum nú í haust. Undir stjórn Alfreðs náði félagið að komast upp í 2. deild og hefur leikið þar síðustu þrjú tímabil. Alfreð mun starfa áfram hjá félaginu sem yfirþjálfari og þjálfari yngri flokka og mun reynsla hans nýtast félaginu þar áfram vel, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ægi.

Fyrri grein„Klúður að stinga þá ekki af“
Næsta greinLokaumferðin í rallinu ekin á Suðurlandi