Selfoss vann nauman sigur á Þór Akureyri í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta á Akureyri í kvöld.
Fyrirfram var um áhugaverða viðureign að ræða en Selfyssingar eru í botnsæti úrvalsdeildarinnar og Þórsarar í toppbaráttu 1. deildarinnar. Það var því ljóst að allt gat gerst í kvöld – og reyndar gerðist það.
Liðin skiptust á um að hafa frumkvæðið framan af leiknum en þegar leið á fyrri hálfleikinn tóku Selfyssingar völdin og náðu mest fimm marka forskoti. Staðan var 12-16 í hálfleik. Þórsarar unnu muninn hratt upp í upphafi seinni hálfleiks og þegar tíu mínútur voru liðnar höfðu þeir jafnað 19-19. Í framhaldinu var jafnt á öllum tölum það sem eftir lifði leiks en Þórsarar voru skrefinu á undan í markaskoruninni.
Þegar fjórtán sekúndur voru eftir tóku Selfyssingar leikhlé í stöðunni 26-26 og Þórir Ólafsson tók fram tússtöfluna. Það reyndist árangursríkt, eftir þrælskipulagðar klippingar braust Einar Sverrisson í gegn hægra megin og skoraði sigurmark Selfoss á síðustu sekúndunni. Lokatölur 26-27 og Selfyssingar komnir í 8-liða úrslit.
Sölvi Svavarsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Sæþór Atlason skoraði 6, Einar Sverrisson 4, Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Richard Sæþór Sigurðsson, Álvaro Mallols og Hannes Höskuldsson 2 og Jason Dagur Þórisson 1.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 10 skot í marki Selfoss og Vilius Rasimas varði 8.