Einar Sverris í ÍBV

Handknattleiksmaðurinn Einar Sverrisson mun spila með ÍBV næsta vetur en hann hefur verið lánaður frá 1. deildarliði Selfoss til Íslandsmeistara ÍBV.

Einar, sem er 22 ára, leikur í stöðu leikstjórnanda og skyttu en hann var markahæsti leikmaður Selfyssinga í 1. deildinni síðasta vetur, með 104 mörk í 19 leikjum.

Einar hefur auk þess leikið með yngri landsliðum Íslands, m.a. með U-21 árs landsliðinu og þykir mikið efni. Eyjafréttir greina frá því að Einari sé ætlað að fylla skarð Róberts Arons Hostert sem yfirgaf Eyjaliðið og hélt til Danmerkur í atvinnumennsku.

Handknattleiksdeild ÍBV hefur myndað nýja leikmenn hér og þar, m.a. um borð í skipum. Þeim þótti hins vegar ekki við hæfi að skella Selfyssingnum um borð í fiskiskip og því fór undirskriftin fram í lyftingasal ÍBV, enda Einar stór og sterkur strákur sem mun eflaust eyða góðum tíma í að refsa lóðunum í lyftingasalnum næsta vetur.

Fyrri greinRaw gulrótarkaka
Næsta greinHalda áfram að rannsaka eyðibýli