Einstefna Stólanna í 4. leikhluta

Marreon Jackson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tók á móti Tindastól í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Jafnræði var með liðunum í fyrstu þremur leikhlutunum en í þeim fjórða stungu Stólarnir af og sigruðu örugglega.

Þórsarar byrjuðu betur, komust í 13-2 og staðan var 28-18 eftir 1. leikhluta. Í 2. leikhluta tóku Stólarnir við sér, komust yfir 30-34 en Þór svaraði fyrir sig og leiddi í leikhléi, 47-44.

Seinni hálfleikur var í járnum fram í byrjun 4. leikhluta. Staðan var 72-74 þegar tæpar níu mínútur voru eftir af leiknum en Þórsarar skoruðu aðeins 6 stig á síðustu níu mínútunum og Tindastóll valtaði yfir þá, lokatölur 78-101.

Marreon Jackson var stigahæstur Þórsara með 28 stig og þar á eftir kom Justas Tamulis með 19 stig. Jordan Semple skilaði drjúgu framlagi með 12 stig og 14 fráköst.

Eftir sjö umferðir eru Þórsarar í 7. sæti með 8 stig en Tindastóll er í toppsætinu með 12 stig.

Þór Þ.-Tindastóll 78-101 (28-18, 19-26, 22-26, 9-31)
Tölfræði Þórs: Marreon Jackson 28/5 fráköst/6 stoðsendingar, Justas Tamulis 19/6 fráköst, Morten Bulow 12, Jordan Semple 12/14 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3, Marcus Brown 2/4 fráköst, Emil Karel Einarsson 1, Ólafur Björn Gunnlaugsson 1, Baldur Böðvar Torfason 1 frákast, Ragnar Örn Bragason 1 frákast.

Fyrri greinSigga á Grund fær heiðurslaun listamanna
Næsta greinÞungur róður gegn Fjölnismönnum