Einstök börn á búningum Selfoss

Landsbankinn og handknattleiksdeild Umf. Selfoss skrifuðu nýlega undir nýjan samstarfssamning til tveggja ára.

Landsbankinn hefur afsalað sér auglýsingum á búningum hjá handknattleiksliðum Selfoss og bauð liðinu að velja sér í staðinn gott málefni á búningana. Selfoss valdi Einstök börn, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar. Merki félagsins mun því prýða búninga Selfoss í vetur.

Þetta er gert í takt við nýja stefnu sem Landsbankinn hefur sett sér um stuðning bankans við íþróttafélög undir yfirskriftinni Samfélag í nýjan búning. Markmiðið er að tengja saman stuðning bankans við íþróttir og mannúðarmál. Alls munu átta íþróttafélög hefja þessa vegferð með Landsbankanum og hvert þeirra hefur valið sitt málefni í samvinnu við bankann.

Stofnaður hefur verið áheitasjóður fyrir Einstök börn og greiðir bankinn ákveðna upphæð fyrir hvern sigur meistaraflokks karla og kvenna Selfoss á Íslandsmótinu í handbolta. Öðrum fyrirtækjum og einstaklingum er frjálst að heita á liðið sitt og leggja þannig góðu málefni lið.

Í tilefni af stofnun áheitasjóða fyrir málefnin átta styrkti Landsbankinn hvert þeirra um hálfa milljón króna, eða samtals fjórar milljónir króna. Styrkur Landsbankans til Einstakra barna nemur því 500.000 krónum. Tryggvi Sigurðsson formaður Einstakra barna veitti styrknum viðtöku fyrir hönd samtakanna á fyrsta heimaleik karlaliðs Selfoss í N1-deildinni á dögunum.

Fyrri greinSuðurlandsvegur lagður niður
Næsta greinÖll boð hærri en áætlun