„Þetta var hörkubarátta og í rauninni nákvæmlega eins og ég bjóst við,” sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, eftir sigurleikinn gegn Njarðvík í dag.
„Það var fátt sem kom mér á óvart hjá Njarðvík en við þurftum virkilega að hafa fyrir þessum sigri,” sagði Ágúst í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta verður bara sama baráttan áfram. Einvígið er rétt að byrja og ég á von á hörkuleik á mánudaginn. Njarðvík spilar þá í fyrsta sinn síðan 2003 á heimavelli í úrslitakeppni, ég býst við fullu húsi og að þær mæti dýrvitlausar. Við þurfum að hafa okkur allar við ef við ætlum að ná sigri þar.”
Hamarsliðið var lengi í gang í dag og Njarðvík leiddi nær allan fyrri hálfleik. Ágúst segir ekkert vanmat hafa verið í gangi. „Það var frekar spennan og tilhlökkunin að vera að fara að spila. Við erum búnar að hvíla lengi og það hentaði okkur vel. Íris spilaði lítið í dag, búin að vera veik og meidd og aðrir leikmenn hafa átt í smávægilegum meiðslum. Þannig að hvíldin reyndist okkur vel en það er samt erfitt að sitja og bíða og horfa á hin liðin spila á meðan.”
Liðin mætast næst í Njarðvík á mánudagskvöld en þrjá sigra þarf til að sigra í þessu einvígi. „Við munum nýta morgundaginn vel í endurheimt og búum okkur undir erfiðan leik á mánudaginn. En stemmningin er góð og liðið er rosalega einbeitt á að fara alla leið,” sagði Ágúst að lokum.