Knattspyrnumennirnir Eiríkur Raphael Elvy, Snorri Sigurðarson og Tómas Kjartansson skrifuðu allir undir samning hjá Knattspyrnufélagi Árborgar í dag og eru þar með komnir „aftur heim“.
Þremenningarnir skiptu úr röðum Árborgar síðasta vetur en Snorri og Tómas léku með Ægi í 2. deildinni í sumar og Eiríkur með Hamri, einnig í 2. deildinni, þar sem Tómas reyndar lauk sumrinu.
Allir hafa þeir leikið áður með Árborg en Snorri er tíundi leikjahæsti leikmaður Árborgar frá upphafi með 78 leiki fyrir félagið. Eiríkur hefur leikið 42 leiki fyrir Árborg og Tómas 30.
Í samtali við sunnlenska.is sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, að hann væri virkilega ánægður með þessi félagaskipti. „Það er frábært að fá þessa meistara aftur heim og það má búast við fleiri félagaskiptum hjá okkur á næstunni. Við förum ekkert leynt með það að við stefnum á að gera stóra hluti í 4. deildinni næsta sumar,“ sagði Guðjón.