Eitt Íslandsmet og fimm héraðsmet voru sett á Áramótamóti frjálsíþróttadeildar Selfoss, sem haldið var í Selfosshöllinni á milli jóla og nýárs.
Þuríður Ingvarsdóttir, Umf. Selfoss, bætti eigið Íslandsmet og héraðsmet 50-54 ára í hástökki án atrennu. Þuríður stökk 1,17 m en gamla metið hennar var 1,15 m.
Ólafur Guðmundsson, Umf. Selfoss, tvíbætti héraðsmet 50-54 í þrístökki án atrennu, stökk fyrst 7,90 m og bætti sig svo um 1 sentimetra til viðbótar. Gamla metið átti Jason Ívarsson, Umf. Samhygð, 7,81 m. Ólafur fór einnig á kostum í hástökki þar sem hann stökk 1,60 m og bætti eigið héraðsmet í 50-54 ára flokki um tvo sentimetra.
Í flokki 15 ára bætti Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, svo eigið héraðsmet í kúluvarpi með karlakúlu, kastaði 11,36 m en gamla metið hans var 10.98 m.
Hjálmar Vilhelm var sigursæll á mótinu, sigraði í hástökki og þrístökki án atrennu, Örn Davíðsson sigraði í hástökki án atrennu, langstökki án atrennu og kúluvarpi, Ísold Assa Guðmundsdóttir sigraði í hástökki og þrístökki án atrennu, Hanna Dóra Höskuldsdóttir sigraði í hástökki án atrennu og Hildur Helga Einarsdóttir sigraði í kúluvarpi.
Allir gullverðlaunahafarnir keppa undir merkjum Umf. Selfoss en á mótinu voru einnig keppendur frá Umf. Þjótanda, Gnúpverjum, ÍR, Óðni í Vestmannaeyjum, Breiðabliki og FH.