Keppendur af sambandssvæði HSK gerðu góða hluti á Gaflaranum, sem haldinn var í Hafnarfirði á dögunum, en það er opið frjálsíþróttamót fyrir 10-14 ára.
Mótið í ár var gríðarlega stórt, yfir 300 keppendur og greinilegt að frjálsar íþróttir eru vaxandi grein. Mjög mikið var um persónulegar bætingar hjá sunnlensku krökkunum á mótinu og lofar það góðu fyrir framhaldið.
Besta afrek Sunnlendinga var unnið í 4×200 m boðhlaupi 13 ára pilta, en sveit Selfoss setti þar glæsilegt Íslandsmet á tímanum 1:52,62 mín og bættu gamla metið um tæpar tvær sek. Þessi árangur er einnig HSK met í 14 ára flokki pilta. Sveitina skipuðu þeir Hákon Birkir Grétarsson, Dagur Fannar Einarsson, Jónas Grétarsson og Tryggvi Þórisson.
Hákon Birkir hljóp í fyrsta riðli í 400 hlaupi í flokki 13 ára og hljóp á 62,35 sek. sem er HSK met í 13, 14 og 15 ára flokkum drengja. Gamla metið í 13 ára flokknum var 67,42 sek og 65,60 sek í 14 og 15 ára flokkum. Hákon hélt ekki metunum lengi því Dagur Fannar hljóp á 60,12 sek í fjórða riðli og á því metin í umræddum flokkum eftir mótið. Til gamans má geta þess að Jónas hljóp einnig á betri tíma en gildandi met fyrir mótið, en hann hljóp í öðrum riðli á 64.00 sek. Þessir þrír röðuðu sér í þrjú efstu sætin í greininni.
Hrefna Sif Jónasdóttir Selfossi bætti HSK metið í 400 m hlaupi í flokki 11 ára um rúmar fimm sekúndur er hún hljóp á 71,91 sek.
Of langt mál yrði að telja upp verðlaunahafa af sambandssvæðinu, en öll úrslit mótsins eru á mótaforriti FRÍ.