Keppendur frá júdódeild Selfoss sóttu ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun á Vormót Júdósambands Íslands sem haldið var í Reykjavík í dag.
Alls kepptu 29 keppendur frá sex félögum á mótinu og þar af áttu Selfyssingar fimm fulltrúa.
Keppnin var spennandi, sérstaklega í -66 kg og -81 kg flokkum. Í -81 mættust Selfyssingarnir Breki Bernharðsson og Jakub Tomczyk í fyrstu glímu. Breki hafði betur eftir hörkukeppni en hann tapaði svo naumlega í gullskori gegn Gísla Egilssyni í undanúrslitum og hlaut þar með bronsverðlaun. Jakub varð í 5. sæti í flokknum og Styrmir Hjaltason í 7. sæti.
Í -66 kg flokknum náði Fannar Júlíusson frábærum árangri en hann er aðeins 15 ára gamall og er á sínu fyrsta ári í flokki seniora. Fannar vann tvær glímur og tapaði tveimur og náði sér þar með í bronsverðlaun. Fannar er í hörkuformi en eins og sunnlenska.is greindi frá um síðustu helgi sigraði hann í U21 árs flokki á Vormóti JSÍ yngri en 21 árs.
Sigurður Fannar Hjaltason náði svo í silfurverðlaun í +100 kg flokknum þannig að Selfyssingar héldu heim með eitt silfur og tvö brons. Þjálfari hópsins á Vormóti JSÍ var Egill Blöndal.

