Jón Aðalsteinn Kristjánsson, þjálfari 2. deildarliðs Hamars í Hveragerði, á ekki von á að bæta við sig leikmönnum í félagaskiptaglugganum.
„Ef eitthvað er þá missi ég leikmenn frá liðinu en ég á alls ekki von á því að bæta einhverju við mig. Við erum auðvitað að skoða hlutina en það er ekkert til á markaðnum hérna,“ segir Jón og bætir við að hann myndi ekki slá hendinni á móti skapandi miðjumanni.
„Já, það vantar kannski helst að bæta inn á miðjuna. Einhvern sem finnur sendingarleiðirnar betur. Við erum reyndar með einn Hvergerðing í huga sem við erum að reyna að ná til baka og vonandi gengur það eftir,“ sagði Jón, dularfullur á svipinn.
Hamar er nú í 9. sæti deildarinnar með 17 stig og eiga fyrir höndum mikilvægan leik á útivelli gegn ÍH á miðvikudagskvöld. Ef Hamar sigrar ÍH fer liðið langleiðina með að kveða niður falldrauginn sem fylgt hefur liðinu síðustu tvö ár.