„Þetta var ekki fallegur leikur en sigur er sigur,“ sagði Valur Ingimundarson, þjálfari FSu eftir 75-85 sigur á Laugdælum í kvöld.
„Það er erfitt að spila hérna á Laugarvatni og þetta er sjálfsagt það daprasta sem við höfum gert í vetur en það dugði til. Þrátt fyrir að vera 20 stigum undir þá náðu Laugdælir einhvern veginn að stjórna þessum leik. Þeir drógu niður hraðann hjá okkur og það var bara vel gert hjá þeim,“ sagði Valur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Það er mikill skóli fyrir okkar gutta að fara í gegnum svona leik þannig að mér fannst mjög flott hjá þeim að ná að landa þessum sigri. Þetta eru skóladrengir og þeir eru jú í þessu til þess að læra körfubolta – og þeir náðu þessu prófi.“