Ægir varð af mikilvægum stigum þegar liðið heimsótti Sindra á Hornafjörð í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Sindramenn komust yfir strax á 1. mínútu leiksins og bættu við öðru marki á 13. mínútu þegar Jón Reynir Sveinsson skoraði sjálfsmark. Þriðja mark Sindra kom á 41. mínútu en Ásgrímur Þór Bjarnason minnkaði muninn tveimur mínútum síðar og staðan var 3-1 í hálfleik.
Sindri byrjaði betur í seinni hálfleik og bætti við marki á 56. mínútu, staðan orðin 4-1. Goran Potkozarac bætti við marki fyrir Ægi um miðjan seinni hálfleikinn og þar við sat. Lokatölur 4-2.
Ægismenn eru nú í 6. sæti deildarinnar með 6 stig en Sindri fór upp í 3. sætið með sigrinum og hefur 7 stig.