Annar keppnisdagur heimsleikanna í Crossfit er í dag en að loknum fyrsta degi var Björgvin Karl Guðmundsson í 4. sæti. Hann leiddi keppnina á tímabili en mistök í stigaútreikningi urðu til þess að hann fékk ekki að klæðast bolnum sem efsti keppandinn hverju sinni klæðist.
„Ég hafði ekki áttað mig á því hvað ég hef saknað þess að keppa við menn á staðnum. Í langan tíma hafa allar keppnir hjá mér farið fram á netinu og ég var búinn að gleyma því hvað maður fær mikla orku frá áhorfendunum. Líka að að hafa aðra keppendur í kringum sig til þess að sjá hvar maður stendur í hverri grein. Ég elska að vera mættur aftur á svæðið,“ segir Björgvin Karl í færslu á Instagram síðu sinni þar sem hann fer yfir fyrsta keppnisdaginn.
Þar kemur fram að hann hafi verið á heimavelli í fyrstu keppnisgreininni, sem samanstóð af einnar mílu sundi og þriggja mílna kayakróðri.
„Ég syndi mikið og nýt þess vel svo að þetta var grein sem ég hlakkaði til að takast á við. Kayakinn líka, ég er fæddur og uppalinn á Stokkseyri þar sem allir þekkja kayak, þannig að þetta var ekki mín fyrsta ferð á kayak. Ég naut þessarar greinar og var ánægður með að enda í 6. sæti,“ sagði Björgvin sem varð svo níundi í næstu tveimur greinum.
„Ég var mjög ánægður með mína frammistöðu í grein tvö en spretthlaupið í grein þrjú var snúið þar sem hlaupið var í riðlum og maður veit ekki hversu hratt hinir hlaupa. Ég vann minn riðil og var þokkalega sáttur við útkomuna,“ segir Björgvin sem var á þessum tímapunkti í 1. sæti í keppninni, fjórum stigum á undan Finnanum Jonne Koski.
Keppnishaldararnir reiknuðu hins var vitlaust, settu Björgvin í annað sætið og Jonne Koski hampaði bolnum góða í fjórðu grein.
„Það er glatað að ég hafi ekki fengið bolinn því ég vann fyrir honum. Þessi grein var í minnstu uppáhaldi hjá mér þennan daginn svo að planið var að gera mitt besta og það er það sem ég gerði,“ segir Björgvin ennfremur.
Annar keppnisdagur í einstaklingskeppninni er í dag og verður keppt í fimm greinum. Karlarnir keppa í fimmtu grein klukkan 16:00, sjöttu grein klukkan 18:40, sjöundu grein klukkan 19:52, áttundu grein klukkan 21:30 og lokagrein dagsins, sem er níunda grein keppninnar hefst kl. 23:36.
Bein útsending frá keppninni er hér að neðan: