HSK hefur örugga forystu í stigakeppni félaganna að loknum tveimur keppnisdögum á Landsmóti UMFÍ á Selfossi. Kristinn Þór Kristinsson varð í kvöld landsmótsmeistari í 800 m hlaupi karla.
Þá tryggði HSK sér sigur í handknattleik karla í kvöld, sem og í hestaíþróttum og júdó. Sigursteinn Sumarliðason var duglegur í stigasöfnuninni í hestaíþróttunum en í júdóinu varð Þór Davíðsson landsmótsmeistari í -100 kg flokki.
800 m hlaupið fór fram kl. 22 í kvöld, um svipað leyti og setningarathöfninni var að ljúka í Vallaskóla. Kristinn Þór var ánægður með sigurinn þó að tíminn hafi ekki glatt hann sérstaklega en hann kom í mark á 2:03,00 mín. sem er nokkuð frá hans besta.
„Nei, ég er ekki mjög stoltur af þessum tíma. Þetta var taktískt hlaup þar sem við fórum rólega af stað en svo tók ég góðan endasprett í lokin þar sem allt gekk upp. Það var frekar hvasst og kalt þannig að þetta var aldrei að fara að verða mjög hratt hlaup,“ sagði Kristinn í samtali við sunnlenska.is eftir hlaupið.
Auk 800 m hlaupsins keppir Kristinn í 400 m og 1500 m hlaupi auk þess sem hann er í sveit HSK í 1.000 m boðhlaupi. Hann stefnir aftur á verðlaunapall um helgina. „Maður sér til hvernig veðrið verður í 400 m hlaupinu á morgun en ég stefni að minnsta kosti á sigur í 1500 m hlaupinu á sunnudaginn,“ segir Kristinn og bætir við að góð stemmning sé í HSK liðinu. „Það mætti auðvitað vera betra veður og meiri stemmning í stúkunni en það er góður andi í HSK liðinu þannig að ég er sáttur.“