Jóhann Ólafur Sigurðsson, markvörður Selfoss, lék vel í kvöld og átti nokkrar frábærar markvörslur í fyrri hálfleik. Hann þurfti hins vegar að hirða boltann þrisvar úr netinu í síðari hálfleik.
„Þetta var ekki alveg nógu gott hjá okkur, fyrri hálfleikurinn var mjög góður en við hefðum átt að standa okkur betur í síðari hálfleik. Það er allt öðruvísi að spila í úrvalsdeild, leikurinn er hraðari og menn hafa minni tíma á boltann,“ sagði Jóhann Ólafur í samtali við sunnlenska.is. „En þetta er eldskírn fyrir okkur og ég held að við höfum sýnt að við eigum erindi í efstu deild.“
Jóhann fann sig vel í leiknum og hann segir liðið hafa mætt vel stemmt til leiks. „Það var ekkert stress í mannskapnum. Það var geðveikt að sjá allt fólkið og stemmninguna. Ég var alveg ánægður með minn leik en þrjú mörk er kannski full mikið.“
Markvörðurinn ungi hefur leikið með báðum liðum en samgangur milli félaganna hefur verið nokkur á síðustu árum. „Það var mjög gaman að byrja á Fylki, algjör snilld. Maður þekki auðvitað alla innan liðsins og það er fínt að byrja á móti einhverjum sem maður þekkir. Þetta var allt fínt – nema úrslitin,“ sagði markvörðurinn geðþekki að lokum.