Meistaramót öldunga í frjálsíþróttum var haldið á Kópavogsvelli um síðustu helgi. Fjórir keppendur af sambandssvæði HSK tóku þátt og unnu til fjölda verðlauna og settu samtals ellefu HSK met.
Auk þess varð lið HSK/Selfoss stigahæsta félagið á mótinu.
Ólafur Guðmundsson jafnaði eitt og setti að auki sjö HSK met í aldursflokki 45 – 49 ára. Hann gerði sér lítið fyrir og vann níu greinar á mótinu. Hann setti met í 100 m grindahlaupi, hljóp á 16,86 sek. Óli bætti HSK met Sveins M. Gunnarssonar í 100 metra hlaupi, hljóp á 12,67 sek. Þá jafnaði hann HSK met Tómasar Jónsonar þegar hann stökk 1,60 metra í hástökki, hann bætti svo metið þegar hann stökk 1,65 metra. Hann bætti eigið met í spjótkasti, þegar hann kastaði 43,35 metra. Loks þríbætti hann HSK met Bjarka Reynissonar í langstökki, stökk fyrst 5,22, svo 5,24 og endaði með 5,55 metra.
Guðmundur Nikulásson setti tvö HSK met á mótinu, hann bætti met Þórs Vigfússonar í 100 metra hlaupi í flokki 50 – 54 ára. Hann hljóp á 14,12 sek. Þá bæti hann met Hreins Erlendssonar í 400 metra hlaupi í sama aldursflokki, þegar hann skeiðaði hringinn á 68,31 sek.
Þorsteinn Magnússon mætti einnig sterkur til leiks og bætti HSK met Þórðar G. Sigurvinssonar í 200 metra hlaupi í flokki 35 – 39 ára. Þorsteinn hljóp á 28,63 sek.
Fjórði keppandi HSK á mótinu var Árni Einarsson. Hann setti ekki met að þessu sinni, en vann til fjölda verðlauna í flokki 80 – 84 ára karla.
Heildarúrslit eru á heimasíðu FRÍ.