Ellefu leikmenn skrifuðu undir samninga við handknattleiksdeild Ungmennafélags Selfoss í kvöld. Allir þessir leikmenn eru aldir upp hjá félaginu og eru bæði reyndir og ungir leikmenn í þessum hópi.
Leikmennirnir sem skrifuðu undir í kvöld voru þeir Sverrir Andrésson, Gunnar Páll Júlíusson, Árni Guðmundsson, Sverrir Pálsson, Ómar Vignir Helgason, Gunnar Ingi Jónsson og Hörður Másson sem allir spiluðu með Selfossliðinu í vetur. Ungu leikmennirnir sem skrifuðu undir samninga í kvöld léku með 3. flokki Selfoss í vetur en liðið varð bikar- og deildarmeistari. Þetta eru þeir Elvar Örn Jónsson, Alexander Már Egan, Hergeir Grímsson og Guðjón Ágústsson.
Í tilkynningu frá stjórn handknattleiksdeildarinnar segir að forráðamenn félagsins séu að vonum ánægðir með undirskriftir þessara leikmanna sem eru liður í áframhaldandi uppbyggingu liðsins og sýnir góðan afrakstur af unglingastarfi félagsins.