Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handbolta og leikmaður þýska 1. deildarliðsins Melsungen, verður frá keppni næstu fimm mánuði vegna alvarlegra axlarmeiðsla sem hann varð fyrir í landsleik Íslands og Austurríki fyrr í mánuðinum.
Handbolti.is greinir frá þessu og vitnar í frétt á heimasíðu Melsungen í dag, þar sem fram kemur að framundan sé aðgerð hjá Elvari Erni til þess að fá bót meina sinna. Hann leikur ekki fleiri leiki á þessu keppnistímabili og missir einnig af upphafi næsta keppnistímabils.
Elvar Örn féll á vinstri öxlina þegar hann var í baráttu í vörninni í fyrri leik Íslands og Austurríkis og skaddaðist í kringum axlarliðinn.