Handknattleiksfólkið Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir úr Ungmennafélagi Selfoss voru kosin íþróttakarl og íþróttakona Árborgar árið 2017. Kjörinu var lýst á verðlaunahátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar í sal FSu í kvöld.
Perla Ruth er lykileikmaður í ungu liði Selfoss sem tryggði sér áframhaldandi sæti í Olísdeildinni í vor og situr í 6. sæti deildarinnar sem stendur. Perla hefur skorað um 150 mörk á árinu og var valin nokkrum sinnum í æfingahóp A-landsliðsins á árinu og lék þrjá fyrstu landsleiki sína í nóvember, var alltaf í byrjunarliði og skoraði 10 mörk.
Elvar Örn er fyrirliði ungs liðs meistaraflokks Selfoss í handbolta, sem er stendur í 4. sæti Olísdeildarinnar. Elvar var í lykilhlutverki með U21 landsliðinu í forkeppni og lokakeppni HM í sumar. Hann hefur einnig verið valinn í A-landsliðshópinn tvisvar sinnum á árinu og var valinn besti miðjumaður Olisdeildarinnar síðastliðið vor.
Örugg kosning hjá handboltafólkinu
Atkvæðarétt í kjörinu hafa bæjarfulltrúar, nefndarfólk í íþrótta- og menningarnefnd, fulltrúar íþróttafélaganna og fjölmiðlar. Í ár var í fyrsta skipti efnt til netkosningar sem var öllum opin og vóg hún 20% á móti öðrum atkvæðum en 700 atkvæði skiluðu sér.
Hjá körlunum sigraði Elvar Örn með 191 stig. Þetta er annað árið í röð sem hann hlýtur titilinn. Annar varð júdómaðurinn Egill Blöndal úr Umf. Selfoss með 125 stig atkvæði og þriðji frjálsíþróttamaðurinn Kristinn Þór Kristinsson úr Umf. Selfoss með 76 stig.
Hjá konunum fékk Perla Ruth yfirburðarkosningu með 163 stig. Önnur í kjörinu varð frjálsíþróttakonan Guðrún Heiða Bjarnadóttir úr Umf. Selfoss með 79 stig og þriðja knattspyrnukonan Kristrún Rut Antonsdóttir úr Umf. Selfoss með 67 stig.
Á verðlaunahátíðinni voru allir þeir íþróttamenn sem unnu Íslands- eða bikarmeistaratitil á árinu heiðraðir auk þess sem íþróttafélögin úthlutuðu úr afrekssjóðum sínum. Þá veitti sveitarfélagið Íþróttafélaginu Suðra hvatningarverðlaun íþrótta- og menningarnefndar 2017.