Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handbolta og leikmaður Selfoss, mun yfirgefa uppeldisfélag sitt í sumar en hann hefur samið við danska stórliðið Skjern.
Elvar Örn fylgir því Patreki Jóhannessyni, þjálfara Selfoss, til Danmerkur en Patrekur samdi einnig við danska liðið á dögunum.
Elvar gerir tveggja ára samning við dönsku meistarana sem greindu frá samningnum á heimasíðu sinni í morgun.
Í tilkynningunni frá Skjern segir Patrekur að Elvar hafi einstakan sprengikraft og sé sterkur maður á mann á báðum endum vallarins auk þess sem hann geti leyst nokkrar stöður.
„Ég hlakka til að sýna mig og sanna hjá Skjern og mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að félagið nái markmiðum sínum. Það verður frábært að spila fyrir Skjern í einni af sterkustu deild í heimi,“ segir Elvar Örn á heimasíðu Skjern.