Elvar Orri afgreiddi Skallagrím

Elvar Orri Sigurbjörnsson sækir að marki Skallagríms í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg heldur í vonina um að komast upp úr 4. deild karla í knattspyrnu eftir 3-2 sigur á Skallagrím á Selfossvelli í lokaumferð deildarinnar í kvöld.

Gestirnir úr Borgarnesi mættu ákveðnir til leiks, enda eru þeir að berjast fyrir lífi sínu í botnbaráttu deildarinnar. Bæði lið fengu tvö dauðafæri áður en Skallagrímur komst yfir á 29. mínútu eftir snarpa sókn. Elvar Orri Sigurbjörnsson jafnaði fyrir Árborg á 36. mínútu eftir góðan snúning í teignum og staðan var 1-1 í hálfleik.

Árborgarar voru sterkari framan af seinni hálfleik og Elvar Orri bætti við tveimur glæsimörkum, með skalla á 53. mínútu og frábæru skoti utan teigs á 80. mínútu. Gestirnir færðu sig framar á völlinn þegar leið á leikinn enda þurftu þeir nauðsynlega á stigunum að halda. Þeim tókst að minnka muninn eftir hornspyrnu á 89. mínútu en komust ekki nær og Árborg fagnaði sigri.

Árborg fór aftur upp í 2. sæti deildarinnar með sigrinum og hefur 35 stig, einu stigi meira en Ýmir, sem tekur á móti Hamri í lokaumferðinni á laugardaginn. Skallagrímur þarf líka að bíða örlaga sinna fram á laugardag. Liðið er með 17 stig í 8. sæti, einu stigi meira en KFS sem mætir botnliði RB á laugardaginn.

Árborg fékk góðan stuðning úr stúkunni í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinBrekkan varð brött í upphafi leiks
Næsta greinStefnan er skýr – höldum ótrauð áfram