Elvar Orri sökkti RB – Hamar tapaði heima

Elvar Orri Sigurbjörnsson skorar fyrsta mark Árborgar í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann góðan sigur á RB í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Hamar varð af mikilvægum stigum í tapi gegn KÁ.

Árborg var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik gegn RB en tókst þó aðeins að koma boltanum einu sinni í netið. Elvar Orri Sigurbjörnsson kom þeim bláu yfir á 13. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Árborg byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og Sigurður Óli Guðjónsson og Elvar Orri komu þeim í 3-0 á fyrstu tíu mínútunum. Eftir það fór RB hátt á völlinn og lék af krafti, án þess þó að fá nein alvöru færi. Árborgarar voru mun nær því að skora en síðasta markið leit dagsins ljós á 72. mínútu þegar Elvar Orri innsiglaði þrennuna og tryggði Árborg 4-0 sigur.

Óliver Þorkelsson kom Hamri yfir á 9. mínútu gegn KÁ á Grýluvelli en gestirnir svöruðu með tveimur mörkum á tveimur mínútum tíu mínútum síðar. Róðurinn þyngdist hjá Hamri þegar Ricardo Ferreira fékk að líta rauða spjaldið á 35. mínútu fyrir brot sem aftasti varnarmaður og KÁ komst í 1-4 fyrir hálfleik. Seinni hálfleikurinn var öllu tíðindaminni. KÁ breytti stöðunni í 1-4 á 60. mínútu en Rodrigo Depetris skoraði sárabótamark fyrir Hamar í uppbótartímanum og lokatölur urðu 2-4.

Staðan í deildinni er þannig að Árborg er í 3. sæti með 28 stig, þremur stigum á eftir toppliði Tindastóls, en Hamar er í 4. sæti með 26 stig.

Fyrri greinNauðsynleg stig fyrir lokabaráttuna
Næsta greinRangárþing ytra endurnýjar samninga við Geysi