Emil og Ragnar í æfingahóp ásamt Collin og Danero

Emil Karel Einarsson og Ragnar Nathanaelsson eru báðir í æfingahóp karlalandsliðsins í körfubolta en framundan eru tveir vináttulandsleikir gegn Noregi í Bergen.

Norska körfuknattleikssambandið fagnar 50 ára afmæli sínu í ár og bíður Íslandi í heimsókn af því tilefni. Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, og aðstoðarþjálfarar hans Finnur Freyr Stefánsson og Baldur Þór Ragnarsson, hafa boðað leikmenn til æfinga í lok mánaðarins.

Í æfingahópnum eru Ölfusingurinn Emil Karel Einarsson og Hvergerðingurinn Ragnar Nathanaelsson. Fleiri „Sunnlendinga“ má finna í hópnum því Danero Thomas og Collin Pryor, sem hlutu íslenskan ríkisborgararétt í sumar, munu nú mæta á sínar fyrstu landsliðsæfingar. Collin er leikmaður Stjörnunnar en hann lék um árabil með FSu á Selfossi og Danero er leikmaður Tindastóls en hann lék með Hamri í Hveragerði í upphafi ferils síns á Íslandi.

Leikirnir í Noregi og undirbúningurinn fyrir þá er um leið liður í undirbúningi Íslands fyrir leiki í forkeppni að EuroBasket 2021 (EM) í vetur. Fyrsti leikur Íslands verður í Portúgal þann 16. september, og svo verða næst tveir leikir í nóvember og tveir í febrúar 2019.

Fyrri greinVegum lokað við Laugarvatn á laugardag
Næsta greinMalbikað á Biskupstungnabraut