Knattspyrnumaðurinn Emir Dokara hefur samið við Selfoss og mun leika með liðinu í Lengjudeildinni í sumar.
Emir, sem er 35 ára gamall varnarmaður, er reynslumikill leikmaður sem á yfir 180 leiki í efstu og næst efstu deild á Íslandi. Hann er frá Bosníu og Hersegóvínu en hefur lengið lengi með Víkingi Ólafsvík.
„Ég er rosalega ánægður með það að vera kominn á Selfoss. Það eru spennandi hlutir í gangi á Selfossi, liðið er ungt og efnilegt. Ég þekki nokkra leikmenn í Selfossliðinu sem og Dean Martin þjálfara þannig ég á ekki von á því að það muni taka langan tíma að kynnast liðinu,“ segir Emir.
Emir hefur spilað með Selfyssingum í Fótbolta. net mótinu í janúar og staðið sig vel.
„Ég þakka stjórninni og þjálfarateyminu fyrir traustið og áhugann sem þeir sýndu mér. Ég hlakka til að verða hluti af þessu liði og ég mun gera allt til þess að hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum í sumar,“ segir Emir ennfremur.