Stokkseyri vann góðan sigur á móti RB í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Hamar steinlá á móti Álftanesi.
Stokkseyringar mætti RB í Reykjanesbæ. Heimamenn komust í 2-0 í fyrri hálfleik en Hafþór Berg Ríkharðsson minnkaði muninn á 40. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik. Hafþór var aftur á ferðinni þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum en um hann miðjan skoraði RB aftur og staðan orðin 3-2. Stokkseyringar hvikuðu hvergi við þetta, Hafþór innsiglaði þrennuna á 75. mínútu og fimm mínútum síðar skoraði Tómas Orri Kjartansson sigurmark Stokkseyringa og tryggði 3-4 sigur.
Á Álftanesi var Hamar í heimsókn og þar röðuðu heimamenn inn mörkum í fyrri hálfleiknum. Staðan var 5-0 í hálfleik og Álftanes skoraði sjötta og síðasta markið þegar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Lokatölur 6-0.
Í riðli-4 er Stokkseyri í 3. sæti með 9 stig en í riðli-3 er Hamar í 5. sæti með 3 stig.