Engar íþróttaæfingar verða í dag eða á morgun á vegum Ungmennafélags Selfoss vegna stöðu kórónuveirusmita í sveitarfélaginu.
„Við teljum mikilvægt að deildin sýni samstöðu og ábyrgð meðan óvissa ríkir um framgang smita í samfélaginu okkar. Þar sem að hvorki fjölbrautaskóli né grunnskólar í sveitarfélaginu eru með hefðbundna starfsemi þessa tvo daga ætlar deildin að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að vinna bug á veirunni í samfélaginu,“ segir í tilkynningu sem knattspyrnudeild Selfoss sendi frá sér í morgun en allar deildir ungmennafélagsins höfðu samráð um þessa ákvörðun.
Æfingar falla því niður hjá knattspyrnu-, handknattleiks-, frjálsíþrótta-, júdó-, sund-, taekwondo-, rafíþrótta- og fimleikadeildum.
Starfsdagar og foreldraviðtöl eru í grunnskólum sveitarfélagsins í dag og á morgun, auk þess sem fjarkennsla er í fjölbrautaskólanum.