FSu og KFÍ mættust í 1. deild karla í körfubolta í Iðu í kvöld. Þar lágu allar varnir niðri en sóknarleikurinn var í hávegum hafður og sigruðu heimamenn 114-100.
FSu byrjaði betur í leiknum og hafði í raun töglin og hagldirnar allan tímann. Staðan var 58-48 í hálfleik og FSu jók muninn um þrettán stig til viðbótar í 3. leikhluta þar sem liðið skoraði 37 stig, þar sem Ari Gylfason fór fremstur í flokki með 14 stig.
Gestirnir komu til baka í 4. leikhluta en munurinn var orðinn of mikill og FSu vann sanngjarnan sigur.
Ari var stigahæstur hjá FSu með 33 stig, Collin Pryor skoraði 20, Erlendur Stefánsson 17, Birkir Víðisson 9 og Hlynur Hreinsson 7 auk þess sem hann sendi 15 stoðsendingar. Geir Helgason skoraði 7 stig, Svavar Ingi Stefánsson og Maciej Klimaszewski 6, Arnþór Tryggvason 4, Fraser Malcom 3 og Þórarinn Friðriksson 2.
FSu rígheldur í 2. sætið í deildinni með 22 stig en Hattarmenn eru í toppsætinu með 28 stig og hafa leikið einum leik meira en FSu.