Það voru aðeins skoruð 87 mörk í leik Fjölnis og Selfoss-U í Grill-66 deild karla í handbolta í dag. Eftir magnaðan leik, sem einkenndist af sóknartilþrifum, sigruðu ungu Selfyssingarnir 43-44.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Fjölnismenn voru lengst af skrefinu á undan. Staðan var 19-19 í leikhléi. Í seinni hálfleiknum fóru Selfyssingarnir algjörlega á kostum (í sókninni) og náðu mest fimm marka forskoti, 30-35. Fjölnir klóraði í bakkann á lokamínútunum en Selfyssingarnir ungu stóðust prófið og unnu sætan sigur.
Hans Jörgen Ólafsson fór mikinn í lið Selfoss-U og skoraði 11 mörk, Sæþór Atlason skoraði 9, Gunnar Kári Bragason og Hannes Höskuldsson 7, Sölvi Svavarsson 3, Gunnar Flosi Grétarsson, Vilhelm Freyr Steindórsson og Jason Dagur Þórisson 2 og Valdimar Örn Ingvarsson 1.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 13 skot í markinu og Karl Jóhann Einarsson 2.